Áttatíu og átta var útskriftaverk mitt úr Listaháskóla Íslands, sem var sýnt á sýningunni Verandi Vera á Kjarvalstöðum, Listasafni Reykjavíkur 21. – 27. maí 2022. Áttatíu og átta, er samsett af þremur gólfstandandi viðarskúlptúrum, sem bera titlana; Áttatíu og átta, Umsnúinn og Aflíðandi ástand.
það er eitthvað sem hendurnar mínar vita en ekki ég. Það er eitthvað sem hugurinn meðtekur en segir mér ekki alltaf frá. Það er eitthvað sem líkaminn skynjar en heldur frá mér. Ófullkomleiki í fullkomleika, bil milli staðreynda. Áttatíu og átta, Umsnúinn og Aflíðandi ástand. Þessi þrjú verk eru mjög persónuleg. Á sama tíma og þau sýna fram á kraftinn, ásetninginn og tímann sem felst í handverkinu við að búa þá til þá er jörð í formunum sem talar til mín. Eilífð, þyngd og tími brjótast út úr bjagaðri efniskenndinni. Hver skúlptúr er jarðtengdur, bæði bókstaflega og huglægt. Þeir standa þvert yfir gólfið í beinu samtali við rýmið, í samtali við gólfefnið. Það er enginn stöpull sem aftengir þá frá gólfinu eða lyftir þeim upp úr raunveruleikanum. Þeir standa á sínu, fullir spennu og verpast út úr eikartrésgólfi sýningarrýmisins.
⟵ Easy French Polish
Follow Me, I Know Where I'm Going ⟶