Ég er klæddur hvítlökkuðum strúktúr sem minnir á stöpul, aftur er ég viðfang með skerta líkamlega getu og aftur ber ég sérhannaðan nytjahlut. Í gjörningnum er ég sjálfur í rýminu en aftur fjalla ég um samband mitt við stöpulinn, áhorfendur, listina. Ég sem listamaðurinn er annaðhvort upphafinn eða niðurrifinn og set mig í afkáralegar aðstæður þar sem ég er alsber og takmarkaður. Ég hafði takmarkaða sjón en áhorfendur sáu mig í gegnum spegil sem ég bar og var því nokkuð klunnalegur og á valdi aðstæðna, ekki endilega leiðtoginn sem titillinn bendir til.