1. Ég er naívisti með fullkomnunaráráttu.
2. Ég tek því alvarlega að gera mig að fífli.
3. Ég skoða minn eigin nafla af auðmýkt.
4. Ég geng fús til verka við að vorkenna sjálfum mér.
5. Ég viðurkenni vanmátt minn gagnvart listinni.
6. Ég vil hafa fullkomið vald á listinni.
7. Ég legg hjarta mitt á borðið og býð fólkinu í mat.
8. Ég er háður stöplinum rétt eins og stöpullinn er háður mér.
9. Listin hefur enga samúð fyrir nágranna sínum.
10. Listin sviptir hulunni af höfði listamannsins miskunnarlaust.
Klemens Nikulásson Hannigan (f. 1994) er myndlistarmaður, tónlistarmaður, húsgagnahönnuður og smiður. Hann starfar sem tónskáld, listrænn stjórnandi og hönnuður fyrir Svikamyllu ehf. og sér um uppákomur og tónleika hljómsveitarinnar og gjörningahópsins Hatara. Klemens útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2022, vinnur sem myndlistarmaður, semur tónlist fyrir Hatara og undir eigin nafni, ásamt því að reka sitt eigið trésmíðaverkstæði. Klemens er afkastamikill og einbeittur listamaður með fjölbreytt áhugasvið. Á starfsferli sínum hefur hann átt í gjöfulu samstarfi með ýmsum listamönnum í myndlist og tónlist og nýtur þess að vinna í skapandi og fjölbreyttum listheimi.
Í myndlistarverkum sínum hefur Klemens velt fyrir sér stöðu listamannsins, táknmyndum og upphafningu listaverksins. Þau fjalla um viðmiðin sem við gefum okkur þegar við upplifum og metum list en jafnframt um stöðu listamannsins í hversdeginum. Hugmyndafræði, strúktúr og efniskennd verka hans bera jafnan með sér miklar andstæður.